Breytt starfsemi hjá Myndgreiningu Hjartaverndar

 - Fréttir, Uncategorized @is

Undanfarið ár hefur Raförninn tekið þátt í miklum breytingum og uppbyggingu hjá Myndgreiningu Hjartaverndar, sem er nýtt fyrirtæki að mestu í eigu Hjartaverndar. Nú hefur bæst við myndgreiningarþjónusta, sem byggir á grunni nær tveggja áratuga reynslu Hjartaverndar af myndgreiningu í vísindaskyni, og sér fyrir endann á stóru og skemmtilegu nýsköpunarverkefni hjá Raförnum.

Vegna breyttrar stafsemi þurfti að umbylta myndgreiningardeildinni að Holtasmára 1 í Kópavogi, endurhanna, breyta húsnæði, endurnýja búnað, bæta við nýjum tækjum, endurskoða vinnuferla, endurskipuleggja gæðaeftirlit og svo mætti lengi telja. Allt starfsfólk Rafarnarins hefur komið að þessu stóra verkefni og heildar verkefnisstjórnun verið í höndum Smára Kristinssonar.

Sjónarhorn Rafarna er alltaf með ofurlítilli tæknislagsíðu og þess vegna hefur spennan verið mest í tengslum við að koma nýjum upplýsingakerfum myndgreiningardeildarinnar, RIS og PACS, í gagnið og nýjum tækjum í rekstur. Ber þar hæst nýtt Siemens Ysio-Max röntgentæki fyrir almennar röntgenrannsóknir og svo flaggskipið sjálft, Siemens Somatom Force sem er fyrsta tvíorku tölvusneiðmyndatækið á Íslandi, þ.e. með tvo röntgenlampa. Tækið býður upp á ýmsa nýjustu möguleika í myndgreiningu, ekki síst á sviði hjarta- og æðarannsókna.

Skemmtilegar myndir frá inntöku tölvusneiðmyndatækisins má sjá á Facebook síðu Hjartaverndar

Hjá Hjartavernd var myndgreiningardeild fyrst sett á laggirnar árið 2002 í beinum tengslum við Öldrunarrannsóknina (AGES) sem hófst það ár. Fyrir þann tíma voru reyndar um skeið teknar röntgenmyndir af lungum vegna Reykjavíkurrannsóknar Hjartaverndar en það var stórt skref að opna í glænýju húsnæði vel útbúna myndgreiningardeild sem var sú fyrsta filmulausa á Íslandi.

Raförninn sá um hönnun og uppsetningu þeirrar deildar, fyrstu hugmyndateikningar voru gerðar um mitt ár 1998 og síðan hefur Raförninn þjónað öllu sem myndgreiningu tengist hjá Hjartavernd. Raförninn og Hjartavernd geta þannig fagnað 20 ára samstarfsafmæli um leið og haldið er upp á að ný myndgreiningarstarfsemi er komin í gagnið. Það er einstaklega gaman og gefandi fyrir tæknifólk og aðra að taka þátt í sífelldri og markvissri uppbyggingu og starfsfólk Rafarnarins er þakklátt fyrir góð samskipti í öll þessi ár.

Á Röntgendaginn árið 2002 var myndgreiningarfólki boðið í heimsókn í Hjartavernd til að kynnast starfseminni og nú, árið 2018, endurtók Myndgreining Hjartaverndar leikinn. Vel heppnað opið hús var haldið að Holtasmára 1 í Kópavogi föstudaginn 9. nóvember þar sem fólki gafst kostur á að líta á nýju breytingarnar, þiggja veitingar og eiga góða stund í skemmtilegum félagsskap.

Allir Rafernir óska Hjartaverndarfólki innilega til hamingju með nýju starfsemina. Við þökkum fyrir frábæra samvinnu í þessu stóra og flókna verkefni og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.