Afmælisár arnarins – Þriðji þáttur
Hér birtist þriðji söguþáttur á afmælisári og enn er leitað í smiðju Smára Kristinssonar, stofnanda Rafarnarins. M.a. er kynntur til sögunnar ungur maður sem margir þekkja í dag 🙂
Raförninn á flugi
Raförninn tók til við verkefni nr 2 árið 1986 og var það fyrir St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Það fréttist að safna ætti fyrir nýju röntgentæki fyrir spítalann og Raförninn bauð fram sína þjónustu við ráðgjöf um innkaup, breytingu á húsnæði, uppsetningu og innleiðingu á búnaði. Á Jósefsspítala hafði verið röntgenstarfsemi frá 1926 eða frá því um 30 árum eftir að Wilhelm Konrad Röntgen tók fyrstu röntgenmyndina.
Tækniframfarir
Ekki er ljóst hversu gamalt röntgentækið sem Raförninn tók niður árið 1986 var en það hefur sennilega verið röntgentæki númer 2 á þeirri deild. Þetta var skyggnitæki með skermi sem breytti röntgengeislum í sýnlegt, grænt ljós eins og flestir hafa séð í gömlum teiknimyndasögum t.d. Andrés önd. Geislun á sjúklinga og reyndar líka röntgenlækna við notkun svona tækja var umtalsverð og Geislavarnir ríkisins höfðu bannað notkun á skyggnihlutanum. Kannski fóru þarna menningarverðmæti á haugana en á þessum tíma snéri hugurinn meira að framförum en varðveislu fornminja.
Andi St. Jósefs systranna
St. Jósefsspítali naut almennt mikillar velvildar og fékk góð tilboð. Svo vildi til 12 árum eftir uppsetningu á búnaðinum að ég hitti af tilviljun sölumanninn sem seldi tækið. Þetta var daginn sem hann fór á eftirlaun. Hann spurði: „Hverng fór með tækið til Jóssefsspítala er að það enn í notkun?“ Af einhverjum ástæðum fannst honum þetta eitt sitt eftirminnilegasta verkefni.
Það var lærdómsríkt að vinna fyrir Jósefsspítala. Þar var farið mjög vel með fjármuni og nýtni var til algerrar fyrirmyndar og gilti þar eitt um hönnuði og iðnaðarmenn. Það þurfti að gera miklar og nokkuð flóknar húsnæðisbeytingar en allt var leyst með bros á vör og endurnýting á efni ótrúleg, nánast ekkert keypt. Þannig virtist andi systranna hafa haft mótandi áhrif á þá sem fyrir þær unnu enda höfðu margir þjónað þeim í áratugi.
Verkefnin tínast inn
Samningur um þjónustu við myndgreiningardeild Borgarspítalans var verkefni Rafarnarins nr. 3. Nokkur órói hafði verið kringum myndgreiningartækniþjónustu spítalans og ákveðið var að stokka spilinn upp á nýtt. Jóhannes Pálmason forstjóri spítalans fékk Egil Skúla Engilbertsson verkfræðing og fyrrverandi borgarstjóra til að ganga frá þjónustusamningi við Raförninn árið 1992 og er minnisstætt hve fagmennska var í fyrirrúmi við samningagerðina. Þessi þjónusta var seinna boðin út og Raförninn vann það útboð. Yfirlæknir myndgreiningar Borgarspítalans á þessum árum var Örn Smári Arnaldsson og samvinna við hann ætíð góð.
Fleiri Rafernir bætast við
Tæknimenn Borgarspítalans sem unnið höfðu fyrir myndgreininguna fluttust yfir til Rafarnarins og um svipað leyti var nýr maður ráðinn til starfa, eftir meðmælum frá ömmu kærustunnar! Þetta var Þorsteinn Ragnar Jóhannesson sem enn í dag er einn af burðarásunum í þjónustu Rafarnarins. Á þessum tíma voru Rafernir því orðnir fjórir: Smári Kristinsson, Sigurður Rúnar Ívarsson og Angantýr Sigurðsson, ásamt Þorsteini. Angantýr hvarf til annarra starfa eftir góð ár hjá Raferninum en Smári og Sigurður Rúnar taka enn að sér verkefni fyrir fyrirtækið.
Við þessa breytingu sköpuðust veruleg tækifæri til að auka og bæta þjónustuna. Það ákvæði í öllum samningum Rafarnarins sem tengdi saman greiðslur og rekstaröryggi búnaðar reyndist mikil hvatning til að halda búnaði í góðu lagi. Við sem áður höfðum verið starfsmenn Borgarspítalans áttum starfsfólki röntgendeildarinnar skuld að gjalda, því þau höfðu kennt okkur mest af því sem við kunnum um myndgreiningu. Þetta var okkur mikil hvatning til að gera okkar besta og launa uppeldið að einhverju marki.
TS tækin
Næsta verkefni var samningur við Röntgendeild Landakotsspítala sem Þorkell Bjarnason röntgenlæknir stjórnaði. Samningurinn kom til vegna stækkunar á myndgeingardeildinni sem var að bæta við sig tölvusneiðmyndatæki eftir að hafa fengið stóra gjöf til þeirra kaupa. Með þessu buðu fjórar íslenskar röntgendeildir upp á TS rannsóknir. Nokkrum árum áður hafði röntgendeildin á Landakoti verið stækkuð með gammamyndavél og einu einföldu röntgentæki. Þessi stækkun var í kjallara og nú bætist TS tækið við í kjallarann. Þetta var öflug starfseining á mjög fáum fermetrum.
Gæðamálin alltaf í fyrirrúmi
Merkasta framlag Rafarnarins til betri röntgenmynda á þessum árum var að taka gæðamál framköllunar föstum tökum. Keyptur var góður mælibúnaður fyrir framköllunarvélar og sett upp fast kerfi til vöktunar og viðhalds á framköllunarvélum viðskiptavina. Á sama tíma var viðhald á sjálfvirkum tökubúnaði og tökutöflum bætt. Þetta þýddi að myndgæði urðu bæði jafnari og betri.
Þetta voru spennandi tímar í myndgreiningartækni. Eftir á að hyggja sáust þarna fyrstu örmerkin um að Ísland væri að komast út úr þeirri kreppu sem ríkt hafði varðand kaup á myndgreingarbúnaði. Fram að þessum tíma höfðu fjárveitingar til nýrra tækja verið mjög af skornum skammti og röntgentæki, jafnvel á stóru spítölunum, notuð í allt upp í 20 ár. Á þessum árum skiptu Svíar um röntgentæki á 10 ára fresti.