Afmælisár arnarins! Annar þáttur…

 - Fréttir

Raförninn tekur flugið
Fyrsta verkefni Rafarnarins kom 1985 og var ráðgjöf við Krabbameinsfélag Íslands sem hafði ákveðið að hefja brjóstakrabbameinsskimun með röntgenmyndum. Þetta var stórt og fjölþætt verkefni sem snérist um gerð og framkvæmd áætlana, hönnun verkferla og val á búnaði. Verkinu stjórnaði Baldur F. Sigfússon röntgenlæknir, þá nýlega komin heim frá Svíþjóð þar sem hann hafði sérhæft sig í brjóstaröntgengreiningu en Svíar voru þá fremstir á því sviði. Krabbameinsfélagið var nýbúið að safna fyrir nýju og glæsilegu húsi, það eimdi enn eftir af frumkvöðlaanda og félagði einkenndist af kappi og framsýni.

Hópleit að brjóstakrabbameini
Skimunin hófst 1987 eftir vandaðan undirbúning. Keypt voru nýjustu og bestu brjóstamyndatæki sem sett voru upp bæði í Skógarhlíðinni hjá Krabbameinsfélaginu og á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þetta voru samtals 5 röntgentæki og einnig var keypt mjög vönduð framköllunarvél, með nákvæmari og meiri stýringum en almennt gerðist. Á þessum tíma var mikil þróun í filmum og fólíum fyrir brjóstamyndir sem kallaði á sveigjanlega framköllun. Eitt af þessum tækjum var svo ferðatæki sem flutt var með sjúkrabílum Rauða krossins á milli staða. Skoðunarstaðir á þessum tíma voru yfirleitt á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum.

Fyrsta ferðin út á land
Prufuferðin út á land var farin að Laugarási í Biskupstungum en þar réðu þá ríkjum læknarnir  Pétur Skarphéðinsson og Gylfi Haraldsson. Okkar samskipti voru við Pétur Skarphéðinsson yfirlækni og Matthildi Róbertsdóttur hjúkrunarforstjóra. Bæði Baldur F. Sigfússon og Kristján Sigurðsson, yfirlæknir Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins, mættu á staðinn og stóðu að baki verkefninu. Í Laugarási voru móttökurnar góðar og vel að öllu staðið og var stöðin undirlögð af skimuninni í tvo daga. Sú velvild sem skimunin naut í Laugarási var dæmigerð fyrir móttökurnar sem skimunin fékk síðan hringinn í kringum landið.

Frumkvöðlastarf og ýmsar prófanir
Í þessari fyrstu ferð var ýmislegt prófað sem fylgdi leitinni í mörg ár. Ferlið var nokkuð flókið því boðið var upp á bæði brjóstaskimun og leghálsskimun.
Við höfðum hannað ferða búningsklefa úr segldúk og látið sauma hjá Seglagerðinni. Þeir reyndust nokkuð vel og voru notaðir ásamt endurbættum útgáfum árum saman. Hver kona fékk körfu fyrir þau föt sem hún þurfti að afklæðast og hafði því fötin hjá sér í gegnum ferlið. Fyrir utan að veita konunum smá öryggistilfinningu, þýddi þetta að nýting á skiptiklefum var góð þvi næsta kona gat alltaf notað lausan klefa.
Við prófuðum líka að framkalla á staðnum í borðframköllunarvél, eins og sumstaðar tíðkaðist úti í Evrópu á þessum tíma. Það var seinlegt og krafðist mikillar viðbótar vinnu, auk þess sem nánast var útilokað að tryggja jöfn framköllunargæði. Því var ákveðið að allar myndir yrðu framkallaðar hjá Krabbameinsfélaginu í Reykjavík.

„Nei, góða mín“
Mætingin var þokkaleg en ekki urðu kollheimtur. Tæknimaður var forvitinn um orsakirnar og spurði Matthildi hvort hún gæti forvitnast um ástæður þess að konur hefðu ekki mætt í skimun og sent tölurnar án persónuupplýsinga til KÍ. Hún gerði það og niðurstöður nýttust til áframhaldandi þróunar á skimuninni. Sú orsök sem kom tæknimanni verulega á óvart var að nokkrir eiginmenn höfðu bannað konum sínum að fara í skimun. Lífsreyndar konur hjá KÍ hristu hausinn yfir fákunnáttu tæknimanns.

Langt og gott samstarf
Í framhaldi af ráðgjafarverkefninu undirritaði Krabbameinsfélagið þjónustusamning við Raförninn og í hönd fór áratuga traust samstarf.

———————————————————————————————

Myndirnar eru samtíningur frá ýmsum tímum en því miður tókst ekki að hafa uppi á ljósmyndum frá fyrstu ferðunum út á land. Ef einhver getur útvegað eldri myndir þá þiggjum við þær með þökkum.