Adora DR með skyggnimöguleika sett upp á LSH

 - Fréttir

Raförninn hefur undanfarnar vikur tekið þátt í uppsetningu á Adora DRfi tæki og tilheyrandi búnaði á LSH í Fossvogi. Þetta er fjórða tækið af sambærilegri gerð sem sett er upp hérlendis en það fyrsta sem býður upp á skyggningu. Þjálfun á tækið er að hefjast og myndgreiningarfólk á LSH hlakkar til að taka nýja búnaðinn í notkun.

Fyrsta tækið af þessari tegund með skyggnimöguleika
Tækið er staðsett á stofu 4 á myndgreiningardeildinni í Fossvogi og leysir af hólmi Toshiba Ultimax tæki sem búið var að þjóna allt frá árinu 2002. Ekki þurfti að gera miklar breytingar á húsnæðinu, tækið rúmast vel á stofunni og aðstaða verður góð bæði fyrir starfsfólk og sjúklinga.

Eins og áður sagði er þetta fjórða tækið af sambærilegri gerð sem tekið er í notkun hérlendis, það fyrsta fékk Íslensk myndgreining í Orkuhúsinu, númer tvö fór á stofu 9 LSH Fossvogi  og það þriðja var sett upp á Selfossi í lok árs 2016.  
Nýja tækið á LSH er það fyrsta af þessari tegund með móttakara (detector) sem býður upp á skyggnirannsóknir.

Mikil þekking og reynsla til staðar
Raförninn hefur komið að uppsetningu á og þjónustu við öll fjögur tækin og að sögn Sigurðar H. Bjarnasonar, framkvæmdastjóra Rafarnarins, hafa tæknimenn safnað að sér viðamikilli þekkingu á búnaðinum og eru sífellt að bæta við sig. Nefna má að myndgerðartölva, frá Canon, sem tilheyrir tækinu er sú 10. af sömu gerð sem tekin er í notkun hérlendis, þannig að mikil og góð reynsla er komin á svona búnað.

Uppsetningunni er að mestu lokið og síðustu daga hafa staðið yfir hinar ýmsu mælingar, stillingar og prófanir í góðri samvinnu Rafarna, LSH fólks og Mogens Ravn, framkvæmdastjóra NRT, sem kom sjálfur frá Danmörku til að sinna hlut NRT í þeirri vinnu. Meðal annars er unnið að því að besta geislaskammta í skyggningu, þannig að geislaálag á sjúklinga verði eins lítið og kostur er.

Kærkomin viðbót fyrir almennar röntgenrannsóknir
„Það er alltaf ánægjulegt að fá að segja frá nýjum tækjum og þetta tæki er sannarlega kærkomin viðbót við tækjabúnaðinn fyrir almennar röntgenrannsóknir“, sagði Díana Óskarsdóttir, deildarstjóri myndgreiningar LSH, þegar Arnartíðindi höfðu samband við hana.

Að sögn Díönu hefst þjálfun starfsfólks á tækið mánudaginn 19. júní og ríkir tilhlökkun í hópi þeirra sem verða fyrstir til að læra á nýja búnaðinn. Fólk hefur verið að undirbúa sig og verður tekið til óspilltra málanna þegar notendasérfræðingur mætir á staðinn. „Það er hann Hilmar Halldórsson, geislafræðingur, sem kemur til okkar frá Danmörku og verður hjá okkur eina viku“, sagði Díana.

Eftir vikuna sem Hilmar verður á staðnum mætir svo aftur tæknimaður frá NRT og gerir fínpússningar með tæknifólki frá Raferninum og LSH.

Hamingjuóskir!
Starfsfólk Rafarnarins óskar LSH fólki til hamingju með nýju græjurnar og hlakkar til áframhaldandi samvinnu.

Arnartíðindi þakka Díönu og Sigurði Hauki fyrir upplýsingarnar. Sigurður Rúnar, hjá Raferninum, fær þakkir fyrir ljósmyndir frá uppsetningunni.

Breytingar í fullum gangi
Allt á réttri leið
Sigurður Rúnar, frá Raferninum, að störfum.
Þorbergur, frá LSH, að kljást við mótþróafullan snertiskjá.
Verið að setja tækið upp