Aðalfundur FG og greining á þróun starfa og ábyrgða

 - Fréttir, Uncategorized @is

Í ár var aðalfundur Félags geislafræðinga haldinn mánudaginn 23. apríl og meðal þess sem var til umræðu er mikilvæg bókun í nýundirrituðum kjarasamningi, þar sem kveðið er á um að á samingstímabilinu skuli ríkið og FG vinna saman að greiningu á þróun starfa og ábyrgða geislafræðinga síðustu áratugina. Ágæt mæting var á fundinn og honum var einnig streymt, þannig að félagsmenn sem ekki komust á staðinn höfðu tækifæri til að fylgjast með fundinum í rauntíma.  

Framtíðarhagsmunir í fyrirrúmi í samningum við ríkið
Arnartíðindi höfðu samband við Katrínu Sigurðardóttur, formann FG, og hún sagði að eins og geislafræðingum væri kunnugt hefðu samningar við ríkið verið lausir 1. september 2017 en þá lauk tímabilinu sem gerðardómur frá árinu 2015 náði til.
Katrín sagði að mjög mörg stéttarfélög, önnur en þau sem voru nú með lausa samninga við ríkið, yrðu með lausa samninga á vormánuðum 2019. Samtök eins og ASÍ eru með uppsagnarákvæði í sínum samningum sem kveður á um að ef hækkanir annarra stéttarfélaga fari fram úr því sem þeir fengu í gildandi kjarasamningi, geti þeir (ASÍ) sagt þeim upp.

„Ógnin um þessa uppsögn hangir yfir og það þrengdi stöðu Félags geislafræðinga í samningunum við ríkið,“ sagði Katrín. „Þess vegna höfðum við ekki svigrúm til neinna stórræða í samingum í þetta skiptið og það var ákveðið að gera stuttan samning, þannig að hann væri aftur laus þegar megnið af vinnumarkaðinum er með lausa samninga vorið 2019. Vonandi verður meira svigrúm þá“, bætti hún við.

Mikilvæg atriði til að byggja á
Í nýja samningnum er þó mikilvæg bókun sem kveður á um að á samingstímabilinu skuli ríkið og Félag geislafræðinga vinna saman að greiningu á þróun starfa og ábyrgða geislafræðinga, sem átt hafa sér stað síðustu áratugina án þess að geislafræðingar hafi fengið viðurkenningu á því þegar kemur að launum.
Þegar litið er til baka fer ekkert á milli mála að að þróun í faginu hefur verið nánast ólýsanleg og er hreinlega ekki um sama starf að ræða og var fyrir 20 til 30 árum.

Samkvæmt bókuninni á greiningin að vera unnin á samningstímabilinu og liggja fyrir þegar gengið verður næst til samninga, sem verður að ári. Greiningin mun því verða inlegg í næstu samningagerð og sagði Katrín að það væri mikill styrkur af því að fá ríkið í lið með félaginu í þessari vinnu.
„Svo er fleira sem vinnur með okkur, til dæmis það að geislafræðingar eru núna löggild heilbrigðisstétt og starfið okkar hefur færst upp um flokk samkvæmt ÍSAT 95, atvinnugreinaflokkun Evrópusambandsins hjá Hagstofu Íslands, þannig að það telst til sérfæðingsstarfa“, sagði Katrín.

Nýtum fordæmi í öðrum löndum
Í greiningunni verður líkað skoðað hver möguleg þróun gæti orðið í framtíðinni. Katrín sagðist telja að við á Íslandi værum heppin að því leiti að framtíð fagsins hér hefði í raun þegar átt sér stað í mörgum löndum sem við berum okkur saman við. Þess vegna þyrftum við mögulega ekki að spá svo mikið um framtíðina heldur gætum horft til samanburðarlandanna og séð hvernig þróunin hefði verið þar. Hún sagði enga ástæða til annars en að reikna með að svipuð þróun muni eiga sér stað hérlendis á komandi árum.

„Þetta er mjög mikilvæg vinna og spennandi tímar framundan“, sagði Katrín. „Vonandi leiðir þetta af sér að fag okkar geislafræðinga og störf verði metin eins og vera ber.“

Arnartíðindi þakka Katrínu fyrir.