Starfsmannakynning – Þór Hjálmar Ingólfsson

 - Fréttir, Uncategorized @is

Raförninn kynnir með stolti nýjasta starfsmanninn, Þór Hjálmar Ingólfsson. Hann er góð viðbót í hæfileikaríkan starfsmannahóp fyrirtækisins, maður með góða menntun og yfirgripsmikla þekkingu og reynslu.

Eins og aðrir sem hefja störf hjá Raferninum fékk Þór beiðni frá ritstjóra Arnartíðinda um smá kynningu á sjálfum sér. Hann brást vel við því og afraksturinn fer hér á eftir.

Fjölskyldan og heimilið
“Ég er giftur og á tvær dætur”, sagði Þór þegar hann var inntur eftir fjölskylduhögum. “Konan mín heitir Kolbrún og við erum búin að vera gift í rúm 23 ár. Hún vinnur hjá Sjúkraþjálfun Garðabæjar sem móttökuritari. Eldri dóttir mín er 20 ára og sú yngri að verða 16.”
“Við búum í Grafarvogi og höfum búið hér síðan um áramót 2005/2006”, bætti Þór við. “Á þessum tíma þurftum við að stækka við okkur þar sem yngri dóttir okkar var þá fædd. Bjuggum í Breiðholtinu þá og leið vel þar en vorum ekki að finna húsnæði í hverfinu sem við bjuggum í.
Ætluðum okkur aldrei að flytja í Grafarvoginn en ákváðum að skoða þessa íbúð sem við búum í núna og þar með varð ekki aftur snúið.”
Þór sagði að fjölskyldunni hefði alltaf liðið mjög vel í Grafarvoginum og báðar stelpurnar klárað sína grunnskólagöngu í hverfinu. “Svo spillir ekki fyrir að við sjáum Esjuna daglega”.

Menntun og fyrri störf
“Hvað viltu fara langt aftur í tímann?”, spurði Þór glettnislega þegar ritstjórinn spurði um menntun og fyrri störf.
“Um 16 ára skeið, frá 1998 til 2014, þá starfaði ég sem gagnagrunnsstjóri, Oracle DBA, meðal annars hjá Flugleiðum og Símanum. Vorið 2014 missti ég vinnuna hjá Símanum og gekk ekkert alltof vel að fá vinnu. Ákvað þá í lok ágúst það ár að skella mér bara í kerfisstjóra námið hjá Promennt. Það gekk það vel að mér var boðin vinna hjá Vodafone þar sem ég starfaði í rúm 5 ár sem Linux, VMware, og Veeam kerfisstjóri. Sá meðal annars um innleiðingu á Veeam afritunarlausn hjá Vodafone ásamt samstarfsfélögum mínum þar.
Þegar ég starfaði sem Oracle DBA hjá Símanum sá ég um og hafði frumkvæði að því að auka öryggi gagnagrunna Símans með því að setja upp og sjá um svokallaða stand-by gagnagrunna fyrir nokkra af helstu grunnum Símans.”

Þegar menntunin kom til umræðu sagðist Þór hafa klárað stúdentspróf og verslunarpróf frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti einhvern tíma í fyrndinni og verið þokkalega duglegur í gegnum tíðina að sækja námskeið bæði hér heima og erlendis.
Sumarið 2019 ákvað hann svo að skella sér aftur í nám. “Mig var farið að langa að læra eitthvað og þá mögulega eitthvað annað en það sem ég hef verið að gera í gegnum tíðina”, sagði Þór. “Rafmagnið hafði alltaf heillað og ég ákvað þess vegna að skella mér í rafvirkjanám án þess að vita nákvæmlega út á hvað það gengi. Get ekki sagt annað en að það hefur verið ævintýri frá fyrsta degi.”

Áhugamál
Þór sagðist í gegnum tíðina í raun ekki hafa átt áhugamál sem slíkt en alltaf haft gaman af að spila tölvuleiki.
“Svo gerðist það fyrir nokkrum árum síðan að yngri dóttir mín fór að suða um það að hana langaði í hund”, sagði Þór og brosti við tilhugsunina. ” Það endaði með því að henni tókst að plata mig með sér á hundakynningu sem var haldinn í Garðheimum. Eftir það varð ekki aftur snúið, hún fann þá hundategund sem hana langaði að eignast og á þessari kynningu kynntumst við ræktandanum sem við keyptum hundinn okkar af.
Í dag þá snýst mitt áhugamál meira og minna um það að komast út að labba með hundinn, hundurinn hefur í raun bjargað mér frá því að verða að sófakartöflu!”, sagði Þór að lokum.

Velkominn!
Allir Rafernir bjóða Þór innilega velkominn í hópinn og hlakka til áframhaldandi samstarfs.